sunnudagur, janúar 03, 2010

Jæja. Fyrstu orðin hér í tvö ár.
Á maður að byrja að blogga hér á ný ?
Gaman að sjá hvort einhver les þetta.
Kv.
Pétur Örn

miðvikudagur, nóvember 26, 2008Hljómsveitin Dúndurfréttir leggur land undir fót og spilar á Dalvík og Akureyri.

28.nóvember
Dúndurfréttir munu spila í fyrsta skipti á Dalvík, heimabæ Matthíasar söngvara.
Þar munu þeir halda órafmagnaða tónleika og skapa ljúfa kertaljósastemmingu hins klassíska rokkheims í hinni íðilfögru Dalvíkurkirkju.
Rjóminn af lögum Led Zeppelin, Pink Floyd, Deep Purple og Uriah Heep.
Tónleikarnir hefjast kl.21

29.nóvember
Stórtónleikar á Græna Hattinum
Dúndurfréttir munu flytja verk Pink Floyd, The Darkside Of The Moon í heild sinni.
Þeim til halds og trausts verða Andrea Gylfadóttir söngkona og Steinar Sigurðason Saxófónleikari. Einnig munu vel valin lög Led Zeppelin, Deep purple og Uriah Heep verða flutt.
Tvennir tónleikar verða þetta kvöld.
kl.20 og 23

laugardagur, október 11, 2008


Dúndurfréttir munu spila í Hvíta húsinu á Selfossi föstudagskveldið 17.október.

laugardagur, október 04, 2008


Nú eru Dúndurfréttir komnar á Feisbúkkið.

http://www.new.facebook.com/pages/Dundurfrettir/29826528110

Allir að kíkja og kætast.

fimmtudagur, ágúst 14, 2008


Næstkomandi sunnudag, 17.ágúst mun hljómsveitin Buff halda tónleika í Sólheimakirkju. Tónleikarnir eru liður í tónleikaröðinni "Listasumar á Sólheimum" og eru þetta síðustu tónleikarnir í þeirri syrpu, sem hefur verið afar vel heppnuð í sumar.
Buff ætla að halda órafmagnaða tónleika og hefjast þeir kl 14:00.

Buffið er að leggja lokahönd á plötu sem kemur út um miðjan oktober, og mun sveitin leika nokkur af þeim lögum sem prýða skífuna. Nokkur af þeim hafa heyrst ansi vel í útvarpi undanfarin misseri, en einnig munu einhver lög heyrast í fyrsta sinn á þessum tónleikum.
Einnig mun sveitin spila nokkur af sínum uppáhaldslögum, lög sem ekki oft gefst tækifæri til að spila, því sveitin er þekktari fyrir að skemmta fólki ærlega á dansleikjum. Á efnisskránni eru m.a lög eftir Bítlana, Crosby,Stills & Nash og Bangles, svo einhver séu nefnd, í bland við þeirra eigin.

Annars er það að frétta af sveitinni að nýtt lag fer í spilun í lok ágúst, og kveður þar við nýjan tón hjá sveitinni, þar sem 3 meðlimir bandsins sjá um sönginn,
Það gafst vel að hafa 2 söngvara í laginu "Í Gær" sem hefur notið mikilla vinsælda í útvarpinu, og ákváðu drengirnir að stíga skrefinu lengra núna og bæta 3 söngvaranum við. Það kemur síðar í ljós hver það er.

Tónleikarnir byrja kl 14:00, endilega skellið ykkur í bíltúr, úr bænum eða bústaðnum og hlýðið á fagra tóna á sunnudegi.

mánudagur, júní 30, 2008


Smá nörd.

Í dag eru hundrað ár frá hinni dulafullu sprengingu sem átti sér stað í Tunguska í Síberíu.

http://en.wikipedia.org/wiki/Tunguska_event

föstudagur, júní 20, 2008


Dúndurfréttir auglýsa eftirfarandi:

Stór-tónleikar á Græna hattinum föstudagskvöldið 27. júní.

Miðaverð aðeins 2500 kr.

Forsala hefst í Pennanum, Glerártorgi og Hafnarstræti föstudaginn 20. júní.

fimmtudagur, maí 08, 2008


Halló.
Pétur í tölvulistanum hér.
Tónleikarnir í Austurbæ með Eika og Hensley gengu rosalega vel og var massastemmari á báðum tónleikum.
Eríkur var frábær eins og við var að búast og það er frábært að hafa spilað með Ken Hensley. Hann lét Hammondinn orga og kom öllum í stuð afar og ömmur mikið. Kallinn er afskaplega næs og var gott að vinna með honum. Þetta var mikið rokk og mikið gaman. Vona bara að flestir sem komu hafi skemmt sér vel.

En....

Það er skammt stórra högga á milli og við Dúndurfréttamenn erum að fara að halda tónleika á morgun, föstudagskvöld 9.maí í Hvíta húsinu á Selfossi.
Tónleikarnir hefjast klukkan 22:30 og er forsala miða í Barón, Kjarnanum á Selfossi.

þriðjudagur, apríl 15, 2008Sælt sé fólkið.
Við Dúndurfréttir ætlum að halda tónleika Í Austurbæ 30.apríl og verða góðir gestir með í för.
Eiríkur Hauksson mun þenja röddina í Uriah Heep prógrammi og afar sérstakur gestur er Ken Hensley, sem er einn af upphaflegum meðlimum Uriah Heep og aðallagahöfundur sveitarinnar.
Þykir okkur mikill fengur að þessu og verða því tvennir tónleikar miðvikudagskveldið 30.apríl.
Þeir fyrri hefjast kl.20:00 en þeir seinni kl.22:30.
Midasala er hafin í Austurbæ og á midi.is.
Athugið að uppselt er að verða á fyrri tónleikana þannig að nú er um að gera að drífa sig og fjárfesta í miða svo þið missið ei af þessu.

Við strákarnir erum í massafíling fyrir þessum tónleikum og vonumst til að sjá sem flesta í rokkstuði.

Kv.
Pétur Örn

P.s.
Hey, hvort bandið er með meira töff mynd.
Okkar er hilaríus frá 1998.

föstudagur, apríl 11, 2008


Sæl veriðið öll.
Var síðasta laugardagskveld að spila á Patreksfirði. Hafði ég tekið ákvörðun um að aka þangað sjálfur og vegna þess að Einar komst ei með oss stökk hann Stefán Már í skarðið fyrir hann, enda mikill tónlistarmaður og vænn drengur þar á ferð. Fórum við tveir af stað úr borginni upp úr hádeginu því hinir höfðu farið um morguninn til Stykkis og tekið flóabátinn Baldur.
Ferðin gekk vel og áfallalaust en sex tíma tók það þó. Og þó Vestfirðirnir séu nú fallegir þá er ekki gaman að keyra þá. Vegirnir ætla að hrista úr manni fyllingarnar og ég missti hjólkopp undan bílnum og vélin datt úr ásamt því að rúðurnar grétu og flugu í burtu með loforði um komandi harmonikkur, logandi.

Giggið var svo doldið erfitt því ég byrjaði að veikjast um kveldið og daginn eftir var ég svo slappur að Stebbi Már ók bifreiðinni til Búðardals á meðan ég svaf. Og ég svaf meira að segja á vegum vítis þar sem holurnar eru svo stórar að ísbirnir sem detta ofan í þær komast aldrei aftur upp. Enda er það algengasta orsök sprungna dekkja á Vestfjörðum þegar ísbjarnarifbein stingast í hjólbarða bíla. Í Búðardal vaknaði ég þó og var hressari og ók þaðan til borgarinnar. Á mánudagsmorgni vaknaði ég svo með tæplega 40 stiga hita og var þannig til miðvikudags er ég dröslaðist til læknis. Hann sagði að ég væri með streptókokka og ég spurði hvort myndi fara fyrir mér eins og Jim Henson. Hann sagðist ekki halda svo.

Núna er klukkan tólf og ég er orðinn hitalaus, þökk sé hinum undraverða heimi pensilíns.
Bandið hans Bubba í kvöld og söngkeppni framhaldsskólanna á Akureyri á morgun.
Ég veit þið verðið að horfa.....þó það sé ekki nema til að sjá hversu hress ég er.

Er svo með pælingu.
Ef þið takið Pa úr Patreksfirði og setjið Star í staðinn, hvað kemur þá ?


Lag dagsins er Doctor, doctor með Skapta og Skafta.

föstudagur, mars 14, 2008

Hello my evil children.
Hér er smá hluti Wall-tónleikanna síðan í sumar.

miðvikudagur, mars 12, 2008


Hún Regína amma mín er níræð í dag. Þessi elska sem fædd er í Flatey á Breiðafirði og fór ekki í land fyrr en hún var tólf ára.
Ég hef margoft til Flateyjar farið í gegnum tíðina og er þakklátur mjög fyrir það.
Hún ber eiginlega ábyrgð á því að ég er tónlistarmaður í dag því hún var píanókennari og pabbi, sonur hennar er tónlistarmaður og þá er ekki aftur snúið.

Til hamingju með daginn elsku amma mín.

Lag dagsins er Dagný sem er í miklu uppáhaldi hjá ömmu.

föstudagur, febrúar 29, 2008


Hey og hó.
Gleðilegan 29.febrúar.
Í dag er sett í spilun nýtt lag okkar Buff manna og heitir það Þakklæti.
Það má hringja í hinar ýmsu útvarpsstöðvar og biðja um það ef stuð sé á ykkar bæ.
Einnig er hægt að heyra það hér:

http://www.myspace.com/buffid


Annars er Júró nottla búið og það var gaman.
Skemmtilegt er líka allt slúðrið sem fólk talar um eftir keppnina. Við buffarar vorum annars hressir með Ragnheiði Gröndal og ég og Stebbi vorum líka með Magna og Birgittu og svo var ég með Davíð Olgeirs.
Þetta er allt stórfenglegt....en.....ekki ætla ég að komast út þetta árið heldur.
Kannski á næsta ári.

En hér sit ég í settinu á Bandinu hans Bubba og verð hér í dag fram á kveld.
Allir að horfa á þáttinn og bara á mig.
Takk.

Lag dagsins er nýja lagið okkar Buffara, Þakklæti.

þriðjudagur, febrúar 12, 2008

Gleðilegt ár.
Síminn kvartar yfir því að kínverskt fyrirtæki sé með sama merki og þeir.
Þetta gerist af og til eins og sjá má.

En ég er kominn aftur.
Meira seinna.

sunnudagur, desember 09, 2007

föstudagur, nóvember 16, 2007


Sæl og nokkuð-oft-blessuð þið séuð.

Vildi bara láta vita að við Buff-arar erum í þætti Loga Bergmanns Eiðssonar í kveld, 16. nóvember klukkan átta og flytjum þar nýtt lag okkar "Hún er svo sæt".

Allir að horfa og engin að gráta.

miðvikudagur, nóvember 14, 2007

laugardagur, nóvember 10, 2007


Textinn að laginu sem hefur gengið ágætlega undanfarið.

Núna mun ég vaka

Vakna um miðjan dag, nenni varla að far´á fætur
Hef samt á því gætur láta verða af því um fimm
Ráð dýr og nú er lag, þorstinn á sér kræla lætur
Hef á honum mætur miklar enda þurrðin grimm

Nú skal hún frá
Hringi í þá
Er ég hef velþóknun á.
Bilbug finna´ ei má.

Núna mun ég vaka
Þykkur er sem hnaus.
Af nægu er að taka
Alveg viðþolslaus.
Nú við skvetti sinnum
Þetta verður aus
Komin með af vinnum
Alveg upp að haus.

Betur má en duga skal, gott betur en þurfa þykir
Kaupi mikið, dusta af mér rykið frá í gær
Sem kálfur að vori, ást mín á þér er sem blæti
Loksins er ég læt þig drösla öðrum fæti nær


Vikan var mál
heiðin svo hál
og er ég þurfandi sál
barmafull er skál.

Og syngja svo...


http://www.myspace.com/buffid


Vantar ykkur einhvern texta að einhverju lagið með oss?
Láttu mig vita.

gomez@simnet.is

þriðjudagur, nóvember 06, 2007Adam Ant átti afmæli um daginn og hann á aðdáendur um allan heim, líka í Írak.

P.s.
Ég átti afmæli líka um daginn. Vei.

föstudagur, september 21, 2007


Heyja heyja hey...

Paul tónleikarnir gengu rosa vel og var mögnuð stemmning á þeim. Það er svo skrýtið að klára eitthvað sem maður er svo lengi búinn að æfa fyrir. Matti, Magni og Raggi Sólberg voru æði á tónleikunum, þó að Magni hafi nú ekki komist á þá seinni.
Það var samt ekki honum að kenna því Á Móti Sól voru að spila á skólaballi sem seinkaði um klukkutíma. En hann keyrði mig og Einar í partýið sem við héldum á eftir tónleikunum. Og nei, hann keyrði mig ekki heim því ég var fullur eins og skáldið orti.
Stebbi söng The long and winding road og Lady Madonna og var frábær. Nesi söng Good day sunshine og var sexý. Einar og Hannes sungu Two of us og fóru saman heim. Ég söng slatta og Bergur sagði við salinn :"Mig langar til að syngja lag fyrir ykkur........en ég get það ekki !"
Mér fannst það vibba fyndið.

Eru allir ekki bara ?

Hvert er ykkar uppáhalds Paul McCartney lag?

fimmtudagur, september 06, 2007


Sælar konur og sælir menn.

Nú ætlum við meðlimir hljómsveitarinnar Buff að halda tónleika til heiðurs Paul McCartney en aðallega af því að okkur langar svo voðalega að spila mörg af lögunum hans. Þetta fer fram í Austurbæ við Snorrabraut fimmtudaginn 13.september næstkomandi. Það verða tvennir tónleikar og hefjast þeir fyrri klukkan 20:00 en þeir seinni kl.22:30.
Það er hægt að fá miða á midi.is og í Austurbæ og kostar 3.900 krónur inn og ekkert út.
Við verðum með gestasöngvarana Matta Matt, Ragnar Sólberg og Magna, allt góðir vinir okkar. Svo er einnig með í för The Reykjavik Session Quartet sem er strengjasveit undir forystu Dr. Roland Hartwell. Halli Dead Sea Apple maður spilar líka með okkur og er búinn að útsetja strengina fyrir strengjahljóðfærin.
Ég held ég sé ekki að gleyma neinu þannig að þið megið ekki gleyma að festa kaup á miða á viðburð þennan því við Buffararnir eigum allir börn sem þurfa að fá rauðvín.

Lag dagsins er House of Wax af nýjustu plötu kappans Memory almost full.

fimmtudagur, ágúst 02, 2007


Þá er það Verzlunamannahelgin.
Buffið er að spila eins og hér segir:....

Föstudagskvöld á Players....
Laugardagskveld á Neskaupsstað já....

...og svo Sunnudagskveld á Players....

Þannig að Vamos a la Playaz.

Hvernig er stuðið annars?

Og hvert er lag dagsins eða helgarinnar....?

laugardagur, júlí 28, 2007Þetta er æði....

http://youtube.com/watch?v=GDHYeW8iDgc

....og er lag dagsins.

Linda er frábær og ég á fjórar plötur á vínyl með henni.
Ég sá þetta lag fyrst í myndinni The Abyss þar sem er verið að færa undersea riggið nálægt byrjun myndarinnar.

Njótið.

miðvikudagur, júlí 18, 2007

Hljómsveitin Dúndurfréttir í kvöld, miðvikudaginn 18. júlí á Gauk á Stöng.
Húsið opnar klukkan 22 og tónleikar hefjast stundvíslega klukkan 23.

See yah....vonandi.

miðvikudagur, júlí 11, 2007


Var að koma af TOTO-tónleikum og það verð ég að segja að var mjög gaman.
Reyndar var spes að heyra hvað mikið var af "playback"-i og þá meina eg raddir og hljómborð en það breytir því ekki að þetta eru menn sem er frábært að hafa séð. Og þá sérstaklega Lee Sclar.
Svo hitti Einar Steve Lukather.
En gaman að hafa verið á sama sviði þarna viku áður og fengið æðislegar viðtökur.
Voruð þið að sjá okkur með Sinfó ?

Lag dagsins er Thousand years með TOTO.

miðvikudagur, júní 06, 2007


Well. Þá skilst mér að komin sé í loftið Sorpu-auglýsing sem Pétur Sigurþór vinur minn gerði og fékk mig til að vera í.
Og á næstunni verða fleiri sýndar og þá má sjá hinn ofurfagra Einar Þór með mér í leiksigri miklum.

En talandi um auglýsingar þá finnst mér spes miðað við allar umræður um að draga úr hraðakstri og að reyna að herða refsingar og að ungir karlkyns ökumenn séu stærsti brotahópurinn, þá er ný heilsíðu-auglýsing frá Shell doldið spes.
Þar er verið að auglýsa V-power bensín og á myndinni sést maður í búningi kappaksturmanna Formúlu 1 vera að dæla bensíni á sportlegan bíl þar sem við stýrið situr, jú, ungur karlmaður.
Það segir meira að segja á vefsíðu Skeljungs orðrétt:
"Ef Shell V-Power getur knúið Ferrari-bíla, ímyndaðu þér þá hvað það getur gert fyrir þig."

Ætlar Shell semsagt ekki að vera með í að breyta hugarfari ungra ökumanna?
Eða ætla þeir kannski að selja svo mikið af fokdýru V-power bensíni að þeir ætla að standa undir kostnaði við tvöföldun Suðurlandsvegar?

Bara að spá.

Lags dagsins er Núna mun ég vaka sem er nýjasta Buff lagið. Klárað í síðustu viku og kemur í spilun í útvarpinu í vikunni.

Það má heyra það hér:

http://www.myspace.com/buffid

þriðjudagur, maí 22, 2007

Nú ætlar hljómsveitin Dúndurfréttir að spila á staðnum sem hún varð til, á Gauki á Stöng.

Það mun eiga sér stað miðvikudags og fimmtudagskveldin 23. og 24. maí, eða á morgun og hinn.

Við hlökkum allir til strákarnir og vonunmst til að sjá sem flesta.

fimmtudagur, maí 10, 2007


Í kveld á Café Victor er skipan þessi:

Stefán Örn hinn ofur-hand-tennti.

Einar Þór hinn afar-örvhenti.

Pétur Önd hinn þó-nokkuð-ósyndi

og.......

....það verður fjórði maður á sviði í kveld og er hann hinn afar-leyni-gest-komandi.


Ef þú vilt vita hver hann er þá komdu í kveld.

Hefjum leik um hálf ellefu.

Vertu óvantaður eða vertu ferkantaður.

Lag dagsins er ekki Hip to be square með Huey Lewis og fréttaköddlunum.

fimmtudagur, maí 03, 2007

Halló lummusnúðarnir mínir.
Bara rétt að láta ykkur vita af því að við Matti, einar og ég erum á Café Victor í kveld að skemmta.
Þið þekkið borinn.

Lag dagsins er Helplessly hoping með Crosby, Stills og Nash.

fimmtudagur, apríl 19, 2007


Amplified Demon ! ! !
Já, það er magnaður andskoti í kveld og á morgun, föstudagskveld á Café Victor.

Matthías Matthíasson, Einar Þór Jóhannsson og Étur Börn munu skemmta eins og vindarnir sjö.

Bannað að mæta ekki. En enginn aðgangseyrir og heldur ekki frágangseyrir.

Bjór fyrir þá sem vilja en vatn fyrir hina.

Einnig á tilboði: Berklaslím með kögglum.

Tökum hina geysivinsælu syrpu "Mona Lisa is an alien ! "

Hvað finnst þér?

Lag dagsins er "Yesterday once more" með Carpenters

föstudagur, mars 30, 2007


Það er komið aftur að því ! ! !
Almennt ball með hinni umdeildu hljómsveit Buff verður haldið í kveld,föstudaginn 30.mars, á skemmtistaðnum Players.
Við ábyrgjumst stuð og lofum að tala ekki illa um neinn eftir ballið.
Sveitin stígur á svið uppúr miðnætti og hættir ekki fyrr en eftir að minnsta kosti fimmtíu lög.
Fjömennum og fjölkvenmennum enn frekar á Players í Kópavogi í kvöld því mér skilst að húsið sé það illa byggt að stuðið í kveld muni rífa þakið af því.

Lag dagsins er óskalagið þitt.

þriðjudagur, mars 27, 2007


Alveg er magnað hve margir hafa heimsótt síðuna mína síðustu tvo daga.
Það virðast rúmlega tvö þúsund hafa komið við á henni, en kannski ekki alveg fundið það sem þau voru að leita að.
Prófið að þýða nafnið á hlutnum á myndinni á færslunni fyrir neðan beint yfir á ensku og þá það kannski smá útskýring.
Vissi ekki að svo margir hefðu áhuga á því sem ég hef stundum að segja. Það er einnig hægt að skoða blaðsíðu nr.46 í Morgunblaðinu í dag til að sjá hluta af skrifum mínum.

Ef þið komið hingað, þá endilega "kommenterið" þótt þið hafið ekkert að segja.
Mér finnst svo gaman að heyra og sjá hinar ýmsu skoðanir.

Það er málfrelsi í landinu og svo lengi sem maður er ekki að skrifa níð, rógburð eða lygar um fólk þá finnst mér að manneskja megi hafa sínar skoðanir.
Ég hef aldrei kallað neinn fífl eða spunnið upp ósanna sögu um það sem ég hef upplifað, hér á bloggi mínu.
Ef fólk getur ekki horfst í augu við gjörðir sínar á það ekki að framkvæma þær.

En þetta blogg á að vera til skemmtunar og vonandi einhvers smá tilgangslauss fróðleiks.
Ég er ekki að dæma neinn og góðlátlegt gaman eru lykilorðin og ég skal hérmeð kalla fyrstu manneskjuna hér á bloggi mínu fífl.

Fíflið það gerði þau mistök að halda að allir geti gert góðlátlegt grín að sjálfum sér og séð muninn á gamni og alvöru.
Fíflið það er kannski ekki alltaf sáttur við það hvernig fólk hagar sér en lætur það ekki fara í taugarnar á sér þannig að það trufli líf hans og annarra, það er að minnsta kosti ekki ætlun hans.
Fíflið.......það er ég.

mánudagur, mars 26, 2007


Djók dagsins er.....

.....þessi mynd af skynjaraskipi.Allir hressir ? ? ?

föstudagur, mars 02, 2007

Fyrirhuguðum Superstar tónleikum okkar Dúndurfréttamanna í apríl er aflýst.
Leikhópurinn Vesturport er að setja hann upp í sumar og er með sýningarréttinn að honum þannig að við megum ekki flytja tónlistina.
Erum samt afar hressir og kátir.

Lag dagsins er In trutina úr Carmina Burana.

mánudagur, febrúar 26, 2007


Aloha þið sælu netverjur.
Þá er það ljóst fyrir nokkru að ég er ekki að fara til Finnlands en það mátti líka alveg búast við því.
Var nú bara í fjórum atriðum af níu þannig að ég var í minni en helmingi atriða.
En þetta var bara skemmtilegt allt saman en ég er doldið feginn að þessari törn er lokið. Heill mánuður í að syngja og dansa.
Hefði verið gaman að fara út en ég var í svo mörgum atriðum að ég get bara keypt minn eiginn miða til útlanda ef ég vil.

Annars er það í gangi þessa dagana að við meðlimir hljómsveitarinnar Dúndurfrétta ætlum að spila lögin úr söngleiknum Jesus Christ Superstar í apríl og höfum fengið góða gesti til að vera með okkur. Verðum með 3 bakraddir og tvo auka hljóðfæraleikara og Guðrún Gunnars syngur með okkur en ekki Friðrik Ómar eins og Fréttablaðið segir frá í dag.
En tónleikarnir eru reyndar háðir því að smá deila milli okkar og annars leikhóps sem ætlar að setja sýninguna upp í sumar leysist.
Þið getið séð smá klausu um það í Fréttablaðinu í dag 26.feb. á síðustu síðunni í dálknum "Fréttir af fólki."
Segi ykkur meira um það er nær dregur.

Lag dagsins er Heaven on their minds úr Superstar

miðvikudagur, janúar 24, 2007


LOKSINS ER KOMIÐ AÐ ÞVÍ ! ! !
Hljómsveitin Buff á balli sem ÞÚ lesandi góður getur sótt.

Við í hljómsveitinni BUFF verðum með dansleik á Players í Kópavogi föstudaginn 26.janúar.
Þetta er okkar fyrsta ball í langan tíma sem er á almennum vettvangi og því um að gera að missa ekki af alveg magnaðri upplifum með okkur Buffurunum.
Við hefjum leik um miðnætti og hlökkum til að sjá ykkur öll, já ÖLL SEGI ÉG ! ! !

föstudagur, janúar 19, 2007


Hvaða súra forvitni er það að vilja sjá myndbandið með Byrgis-kallinum og stúlkunni?
Ég hef enga löngun til að sjá unga konu hýða einhvern gráhærðan, síðhærðan kall.
Og að vera sá sem setti þetta á netið finnst mér vera svo slæmt að viðkomandi ætti að athuga sinn gang og hugsa áður en hann fremur svona mannorðs morð. Hver er ástæðan eiginlega ?
Og það sorglega er að það er fullt af fólki búið að vera að skoða þetta.

Mér finnst fólk stundum vera svo miklir hræsnarar og flestir eru með einhverjar beinagrindur í skápnum sem þeir ættu að hugsa stundum um áður en andleg krossfesting á náunganum hefst.
Sekur eða saklaus hættir að skipta máli því í gegnum fjölmiðla hefur dómstóll götunnar dæmt viðkomandi sekan og viðkomandi er útskúfaður um ókomna tíð.

Horfðu í eigin barm áður en þú kastar steininum.

miðvikudagur, janúar 10, 2007Komið sæl o.s.frv.
Gleðilegt ár og vonandi eru allir að nálgast kjörþyngd á ný.
Hafði það gott sjálfur og er feginn að vera laus við salthausverk hátíðanna.
En eitt sem ég var að velta fyrir mér og það er þegar jólin eru búin, kristin hátíð og allt það(og ekki neinn koma með besserwisser-fróðleik um að þetta hafi verið heiðin hátíð einu sinni og allt það), þá er á þréttandanum allt í einu farið að dýrka álfa og tröll. Hvers konar trúarhátíðastökk er það? En það er reyndar ekki það sem ég var að spá í heldur það fjölmiðlafyrirbæri að taka viðtal við jólasvein eða álfadrottningu og álfakóng. Fyrir hvern er það? Ég var að keyra á þrettándanum um klukkan níu um kveldið og þá var Snæfríður Ingadóttir á Rás 2 að tala við "álfakóngahjónin".
"Hvað eruð þið búin að búa hér lengi?"
"Jah, ætli við séum ekki búin að vera hér í nokkur hundruð ár, er það ekki kóngsi kallinn minn?"
"Júhúhúhú álfadrottning kær"
"Og eru börnin ekki bara góð og þæg?"
"Jú þau eru bara búin að vera afskaplega góð í ár."
"Og eru tröllin nokkuð að ónáða mannfólkið?"
"NeinieneifækjfælkjgælkfjælkjAAAAAARRGGGH

Þarna er fullorðin fjölmiðlamanneskja að tala við fullorðna áhugaleikara og þau að improvisera eitthvað viðtal sem fullorðnir hafa ekkert gaman að og börn hlusta ekki á því börn hafa ekki gaman að fréttatímum.
Samt er þetta ár eftir ár eftir ár.
Kertasníkir í sjónvarpsviðtali sem er í raun ekki fyrir neinn.
Hættið þessu. Ég er ekkert að drepa jóla-andann með því að segja þetta. Við getum haldið jól án þess að fullorðið fólk leiki leikrit sem enginn hefur áhuga á og fer bara í taugar á fólki eins og mér.

Annars hress.

P.s.
Sá svona seytján vetra stúlku áðan vera að skafa bílinn sinn í snjónum og hún var klædd í mjaðmabuxur og magajakka og þarafleiðandi ber á maganum og mjóbakinu og snjórinn þeyttist á nafla hennar og ekki getur það verið annað en kalt. Eru stúlkur eins og hún kannski löngu búnar að drepa tilfinningafrumurnar á þessu svæði líkamans fyrir löngu með því að vera með magann beran hvernig sem viðrar? Ekki vænt til barneigna. Náttúruleg ofrjósemisaðgerð í boði áhrifa Paris Hilton, eymingjalegustu kvenveru jarðarinnar.

Elska ykkur öll

fimmtudagur, desember 21, 2006


Lokzinz lokkcins.

Matthías Matthíasson

Einar Þór Jóhannsson

Pétur Örn Guðmundsson

á Café Victor í kveld.

Ægilegt stuð og engin jólalög, bara jólaöl og venjulegt öl á tilboði.

Komið og verið minni menn og konur.

Allt í lagi ? ! ?

Sjáið Matta hvísla Live On Stage.

Ótrúleg upplifun ! ! !

mánudagur, desember 11, 2006


Nú er sala á tónleika okkar Dúndurfréttamanna í algleymi á midi.is og í Austurbæ.
Endilega tryggið ykkur miða sem fyrst og ég lofa ykkur góðri skemmtun.

laugardagur, desember 09, 2006


Hey, ef maður tekur S-ið úr heitinu Súgandafjörður þá er kominn Úgandafjörður.
Segjum svo ekki að Ísland sé ekki alþjóðlegt.